Skoðun

Hvers vegna þurfti að farga bókinni?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Fjallað var um það í fjölmiðlum fyrr í vikunni að farga hefði þurft 30.000 eintökum af bók sem til stendur að gefa út í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins í ár. Ástæðan var sögð sú að Katrín Jakobsdóttir hefði skrifað formála að bókinni áður en hún lét af embætti sem forsætisráðherra. Vegna afsagnar hennar hefði þurft að prenta bókina aftur með nýjum formála rituðum af Bjarna Benediktssyni núverandi forsætisráðherra.

Hvers vegna í ósköpunum var svo nauðsynlegt að rita nýjan formála að prenta þyrfti allt upplagið á nýjan leik með tilheyrandi kostnaði? Var ekki einfaldlega hægt að segja að bókin hefði verið gefin út í tilefni af afmælisárinu og gengið frá henni í tíð fyrrverandi forsætisráðherra? Hvaða máli hefði það í raun skipt? Katrín hefur aðspurð einfaldlega bent á það að ákvörðunin væri ekki hennar. Það væri Bjarna að svara fyrir það.

Talað hefur verið um það að umrædd bók hefði verið hugarfóstur Katrínar. Var þá ekki enn ríkari ástæða til þess að leyfa formálanum hennar að halda sér? Komið hefur fram í fjölmiðlum að Katrín hafi verið að vinna að formálanum allt fram að því að bókin fór í prentun sem bendir ekki beinlínis til þess að ákvörðun hennar um framboð hafi verið tekin með margra mánaða fyrirvara eins og sumir hafa gert skóna að.

Hvernig sem á málið er litið má ljóst vera að engin þörf hafi verið á því að farga 30.000 bókum einungis vegna þess að sitjandi forsætisráðherra þegar þær voru prentaðar lét síðar af embætti. Það er vitanlega núverandi forsætisráðherra að svara fyrir það hvers vegna þessi sóun þurfti að eiga sér stað enda ákvörðunin tekin á hans vakt. Hvort sem hún var tekin af honum sjálfum eða starfsmönnum forsætisráðuneytisins.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×